Fjarbúðin

Monday, January 22, 2007


Hugleiðing um upphaf sjö ára ógæfu

Ég lenti í því á laugardagsnótt að rekast utan í stóran spegil sem hafði verið reistur upp á rönd við vegg. Spegillinn valt um koll og brotnaði í þúsund mola sem dreifðust yfir baðherbergisgólfið.

Í gær, sunnudag, rann svo upp dagur ógæfunnar. Ísland tapaði, Manchester United tapaði, liðið mitt tapaði 20-8 í innanhússboltanum og ég komst að því að heima hjá mér var spóla sem átti að skila út á vídeóleigu fyrir viku. Til þess að kóróna þetta allt saman þá þurfti ég að skera mig á glerbrotunum þegar ég hreinsaði þau upp.

Í gær var einnig dagurinn þar sem konan mín fór norður í land og munu líða fjórar vikur þangað til að ég sé hana næst.

Svona væri hægt að líta á málin.

Þá væri ég hins vegar að horfa framhjá ýmsum staðreyndum. Ég hef t.d. ekkert fylgst með handboltamótinu og þótt ég fylgi M.Utd. að málum þá er ég það illa inni í leik liðsins að ég veit varla hverjir eru að spila fyrir þá. Ég fann þúsund króna seðil í vasanum í gær sem ég lét vinkonu okkar hafa og hún sá um að fara með spóluna út á leigu og tók á sig aukakrók til þess að skutlast eftir mér þegar ég skilaði bíl sem ég var með í láni.

Skurðurinn eftir glerbrotin sést varla lengur og ég má telja mig býsna heppinn að hafa sloppið svo vel eftir að hafa tiplað nokkrum sinnum berfættur um baðherbergið áður en ég hreinsaði upp glerbrotin berhentur.

4 Comments:

  • At 7:25 PM, Anonymous Anonymous said…

    Úff.. ég veit ekki hvað skal segja. Sjö ára ógæfa er ekkert grín, hef lent í þessu sjálf.
    Ég ráðlegg þér að pakka þér vel og vandlega inn í bómul, grafa þér holu uppí fjalli og liggja svo í dvala næstu sjö árin. Held það sé ekkert annað í stöðunni að gera.

     
  • At 12:15 PM, Blogger Ósk said…

    Þið eruð svo ógeðslega fyndin bæði tvö :)

     
  • At 8:36 PM, Anonymous Anonymous said…

    Bíddu, ertu þá að segja að þú sért ekki hjátrúarfullur?

     
  • At 1:47 AM, Blogger Sverrir said…

    Þegar ég er spurður þá segi ég alltaf að þetta og hitt „séu bara venjur“ ef þú skilur hvert ég er að fara ;-)

     

Post a Comment

<< Home