Fjarbúðin

Thursday, February 15, 2007


Líf

Ég er á leið norður í Mývatnssveit á morgun til þess að vera þar yfir helgina. Á óskalistanum frá Ósk er m.a. plantan Líf sem er úti í eldhúsglugga. Ætli ég geti tekið hana með í bakpokanum í flugið? Hún mun a.m.k. ekki lifa af það að vera kastað til í ferðatösku af harðhentum hlaðmönnum á flugvellinum.

Uppfært (23:43)

Mér sýnist Líf ekki vera þess leg að hún þoli flutning norður. Hún er samt enn á lífi og hressist vonandi eftir vatnssopann áðan.

Monday, February 05, 2007


Áætlun „Mýflug“ heppnaðist fullkomlega!

Áætlunin heppnaðist fullkomlega á föstudaginn. Ég fór í flug rúmlega tíu, borðaði hádegismat á Akureyri og var kominn með rútunni kl. hálfþrjú á föstudaginn.

Sumir voru pínkulítið undrandi þegar ég hringdi dyrabjöllunni á Helluhrauni 7a.

Föstudagurinn fór að miklu leyti í að leggja sig. Við fórum svo í jarðböðin og elduðum þríréttaða máltíð á laugardagskvöldið. Horfðum á LA Story og Confessions of a Dangerous Mind sem eru báðar ansi góðar (hvor á sinn hátt) og auðvitað horfðum við á Eurovision. Lagið hans Dr. Gunna er ansi gott og sama má segja um lagið sem kom á eftir því.

Nú tekur við vinnutörn fram að næstu ferð norður sem verður á föstudaginn í næstu viku.

Friday, February 02, 2007


Nótt á VR2 2

[Varúð: Nám + þreytusvimi]

Vúhú! Mér tókst að leysa burðarbitaverkefnið núna rétt fyrir kl. 3. Húrra fyrir verkfræðingunum sem settu upp síðuna http://www.soft4structures.com (markhópur=Eyrún)!

Röltið út í 10-11 hefur greinilega borið ávöxt. Nú hef ég engu að kvíða þótt skýrsluskil séu á mánudaginn. Á samt enn eftir heimadæmi o.fl. áður en ég fer að sofa.

Enn eru nokkrar hræður í húsinu þegar ég fer að pakka niður. Það er kveikt ljós á bókasafni meistaranema. Þar eru augljóslega einhverjir sem ætla að ná því að útskrifast í febrúar.

Nótt á VR2

[Varúð: Svefngalsi]

Nú er klukkan farin að ganga tvö um nótt hér á VR2. Auk mín er hér reitingur af fólki, meirihlutinn af því er að undirbúa Hönnunarkeppni vélaverkfræðinema sem fram fer kl. eitt á morgun. Það er reyndar útlit fyrir að ég missi af keppninni.

Annars er gott að vera hérna í ró og næði. Ég er búinn að breiða vel úr mér hérna í tölvuverinu og tel 13 mismunandi blaðabunka í kringum mig á nálægum tölvum og stólum. Ég get hvenær sem er rölt út í 10-11 sem er opin allan sólarhringinn og náð mér í gotterí. Ég henti Brakpokanum sem ég keypti í dag því hann var ekki nógu góður á bragðið (og jú, ég viðurkenni að hafa heyrt rödd Sölva Fannars einkaþjálfara í hausnum á mér: „Þú myndir aldrei setja svona rusl á tankinn á fína bílnum þínum“ - og ég sem á ekki einu sinni bíl). Hef haldið mig við ávextina hingað til en hver veit hvað gerist þegar líða tekur á nóttina og verkefnið í reiknilegri aflfræði fer að taka á sig mynd.