Fjarbúðin

Friday, December 29, 2006


Nintendotölva á heimilið

Nei, við erum ekki búin að fá okkur Wiii!

Við keyptum gamaldags Nintendo NES tölvu (gráa að lit) í félagi við Lynghagabræður.

Við vorum að spila Duck Hunt áðan og vorum að velta fyrir okkur hvernig byssan virkaði.

Svarið fannst á netinu (hér). Fyrir ykkur sem nennið ekki að lesa þetta þá gengur þetta svona fyrir sig:

1. Þegar smellt er af gikknum verður skjárinn svartur.

2. Það sjást samt hvítir deplar þar sem endurnar eru á skjánum.

3. Ef ljósneminn inni í byssuhlaupinu sér hvítt en ekki svart hefurðu miðað rétt á öndina. Hún drepst og þú færð stig!

Thursday, December 28, 2006


Bjargvætturinn

Að slökkva eld í kertaskreytingu og servíettu er prýðileg leið til þess að losna við volgt kók í jólaboðum.

Ótrúlegt hvernig allir frusu þegar það kviknaði í. Það liðu trúlega um 15 sekúndur þangað til við mundum eftir því að besta leiðin til þess að slökkva eld er að skvetta á hann vökva!

Friday, December 22, 2006


Nýársgleði og fjarbúð

Við hjónakornin bjóðum öllum lesendum í áramótapartí á Nesvegi 66 eftir kl. 1 á nýársnótt. Þetta er ekki bara teiti vegna áramótanna heldur er þetta líka kveðjuteiti því Ósk er að fara að kenna unglingum í Mývatnssveit stærðfræði eftir áramót.

Við keyrum norður 2. janúar en þið þurfið samt ekki að örvænta því Ósk kemur í bæinn í námslotur í fjarnáminu og svo er aldrei að vita nema einhver hafi áhuga á því að fljóta með þegar Sverrir fer að heimsækja Ósk í vor.

Tuesday, December 19, 2006


Hættulegir vegir og Carlos Pelligrini

Í gærkvöldi rakst ég á blogg yfir hættulegustu vegi heims eftir ábendingu frá Einari Erni (www.eoe.is).

Hér er vegabloggið.

Vegur númer 2 í röðinni er í Bólivíu og gengur undir því heillandi nafni „Dauðaslóðin“. Í Dragoman-bæklingnum um ferðina okkar í sumar var varað sérstaklega við því að hjóla þarna niður! Fyrir mann sem verður dauðskelkaður í rússíbana fyrir börn á Spáni þá var það aldrei inni í myndinni.

Vegur númer 1 í röðinni er hins vegar eitt allsherjardrullusvað og minnti mig strax á vegina til Carlos Pelligrini í Argentínu. Það minnti mig svo á að við eigum eftir að setja inn myndir frá ferðalaginu inn á netið! Kannski látum við verða af því um jólin.

Hér er sex myndir frá bænum Carlos Pelligrini sem er við Iguazu fenjasvæðið í Argentínu. Það var bæði rigning og myrkur þegar við ókum drulluveginn í áttina að bænum. Trukkurinn rann nokkrum sinnum til á veginum og við vonuðumst bara til þess að hann myndi ekki velta. Þegar við komum að skóginum við brúna yfir í bæinn í rigningunni datt okkur það sama í hug: Tölvuleikurinn Myst!



















Mynd 1: Brúin yfir í Carlos Pelligrini.







Mynd 2: Tjaldstæðið okkar í Carlos Pelligrini. Þarna sést tjaldið okkar.







Mynd 3: Krókódílar á fljótandi eyju á fenjasvæðinu. Við fórum seinna úr bátnum (ekki samt nálægt krókódílunum) og hoppuðum á tveggja metra þykkri eyjunni!







Mynd 4: Á huggulegum veitingastað í Carlos Pelligrini.







Mynd 5: Hér er „fáfarnari“ leiðin frá Carlos Pelligrini sem hefði stytt för okkar um ca. 150-200 km. Við snerum samt við áður en við festum bílinn!







Mynd 6: Hér er verið að þrífa bílinn eftir að við komum aftur á malbikaða aðalveginn.



Ég ætlaði að stytta mér leið og vísa á myndir af netinu frá Carlos Pelligrini. Það sem kom óvænt í ljós þegar ég leitaði að „Carlos Pelligrini + Iguazu“ á netinu var síða stelpu sem er búin að ferðast sömu leið í haust og við fórum í sumar nema í öfuga átt! Hún er sem sagt búin að ferðast að vera á ferðalagi frá Ríó um La Paz í Bólivíu til Ekvador (við hófum för okkar til Ríó í La Paz).

Það sem er enn fyndnara er að hún er með mynd af sama bílnum og við ferðuðumst á sem nefndist „Tortuga“ (Skjaldbakan) í drullusvaði á leiðinni til Carlos Pelligrini! Skrýtið að endurupplifa ferðalagið í gegnum þessa og aðrar myndir hjá henni á netinu.
Gott fyrir sálina:
  • Að hlusta á Benna Hemm Hemm og fallegu lögin um lífið!
  • Að setja alveg sjálfur saman hlut frá IKEA
  • Að laga saumsprettu
  • Að viðurkenna að maður hefur ekki rétt fyrir sér

Wednesday, December 13, 2006



Jólin koma senn

Hér er jólalag og myndband sem kemur öllum í gott jólaskap!

Aðrir sálmar:
Strákarnir á b2.is voru svo elskulegir að setja inn slóð á lokaverkefnið mitt í burðarþolsfræði.

Monday, December 11, 2006



Fýsibelgur á Hlöðunni

Hvernig getur ein manneskja andað svona ótt og títt á milli þess sem hún bankar með pennanum í námsbækurnar, sýgur upp í nefið, ropar og geispar af áfergju?

Nú væri gott að vera með eyrnatappa.

Friday, December 08, 2006


Lækjargötu 8. desember

10:50 Lítill snáði bendir á skítugan snjóskafl fyrir neðan MR og segir við pabba sinn: „Wooh! What a big snow mountain!“

13:15 Tveir hressir náungar á Audi eða BMW eru eitthvað að pukrast í bílnum en skrúfa svo niður rúðuna og spyrja: „Hver er höfuðborgin í Mósambík?“ Þeir hlæja og ég brosi. Deginum er bjargað!

Tuesday, December 05, 2006

Hafið þið einhvern tímann lent í því að maðurinn ykkar
  • hendir fötunum sínum út um allt
  • vaskar aldrei upp, segist svo ætla að gera það og bíður þar til það er komið fjall og vond lykt úr vaskinum
  • er rosalega veikur og vill láta hjúkra sér þó að hann sé bara með nokkrar kommur og kvef
  • er algjörlega sambandslaus þegar hann er að horfa á sjónvarpið
Ég hef ekki lent í neinu af þessu með manninn minn en hann er stöðugt að reka sig á þetta með mig. Það er aðeins tvennt sem getur verið í gangi.
  1. Í rauninni er ég karlmaður og hann kona
  2. Konur bæjarins eru að alhæfa um karlmenn út frá sínum manni
Ég er ekki bara að blogga þetta til að allir viti hvað ég á yndislegan mann heldur er ég orðin ótrúlega leið á neikvæðum alhæfingum um karlmenn og reyndar konur líka og alla.

Konur geta ekki bakað í stæði... Jú ég get það víst!

Saturday, December 02, 2006


Láttu bílinn borga gjafirnar!

Ingvar Helgason býður þeim sem kaupa nýjan bíl hjá fyrirtækinu 100 þúsund kr. inneign í Smáralindinni og 75 þúsund kr. inneign ef bíllinn er notaður.

Eftir þessa auglýsingu rifjuðust upp fyrir mér nokkur misgáfuleg tilboð af sama tagi þar sem eitthvað fylgir „frítt“ með annarri vöru sem er mjög misjafnlega tengt því sem maður er að kaupa.

Dæmi:

1) Tilboð að hætti BT og Nýherja

Hverju SONY heimabíó fylgir Superman „frítt“ með á DVD.

Þú færð „ókeypis“ fartölvutösku með hverri fartölvu á meðan birgðir endast.

Þessi tilboð eru svo sem ekki órökrétt.

2) Alls konar áskriftartilboð, símfyrirtæki o.fl.

Ef þú gerist áskrifandi að Lifandi vísindum í ár færðu þetta glæsilega úr „að gjöf“.

Hmmm...hvernig tengist það tímaritinu? Trúlega eru tímarit eins og Gestgjafinn og Hús og híbýli í bestu aðstöðunni til þess að gefa gjafir sem tengjast efni tímaritanna (og kannski B&B þótt ég hafi ekki heyrt um það!).

Svo eru það TAL og OgVodafone:

Komdu í áskrift hjá okkur og fáðu 10 „frímiða“ í bíó!

Æi, já, það var víst sama móðurfyrirtækið á bak við símfyrirtækið og bíóið!

3) Sjónvarpsmarkaðurinn og álíka

Ef þú pantar magaþjálfarann innan tíu daga færðu sendan með steikarspaða sem er líka málmleitartæki.

Í þessum flokki er það bara hugmyndarflugið (og lagerinn) sem stöðvar seljandann.

Eru lesendur með fleiri sögur og hugmyndir?